þriðjudagur, nóvember 19, 2002

Vá hvað tíminn flýgur, það er bara allt of margt búið að vera að gerast undanfarið... let´s start on Saturday, -ok?

Laugardagur
Er vakin á fruntalegan hátt af símanum mínum, á hinum endanum er Eyrún að segja mér að vera tilbúin, hún sé að koma sækja mig. Mín er ekki alveg að fatta hvað hún er að tala um, enda er höfuðið á mér alltaf undarlega lengi að hrökkva í gang á morgnana...
Það kemur samt í ljós að við höfðum ákveðið að fara ásamt Tótuling í dagsferð útúr bænum, og eftir miklar fortölur tókst mér að sannfæra hana um að sækja mig ekki fyrr en á hádegi.
Hádegi kom samt allt of fljótt, svo að innan skamms vorum við lagðar af stað út úr bænum.

Á leiðinni út út bænum kom í ljós að Eyrún hafði lagst út í rannsóknir á staðsetningu hvera í Hveragerði á netinu kvöldið áður, svo við vorum vel undirbúnar, -eða það héldum við.
Eftir eins og hálfstíma leit að hvernum Grýtu vorum við orðanar úrkula vonar um að finna hann nokkurntímann. Í staðinn höfðum við fundið: 1 stykki golfvöll með golfskála, 1 stykki hesthúsahverfi, mikið mikið af húsum og eina alskeggjaða konu. Við ákváðum því að gefast upp og fara fá okkur eitthvað að borða í Eden. Það voru dýr mistök, -Eden er okurbúlla!!! Lítil (33cl) kókdós á 200 krónur!!! Ég er enn ekki búin að jafna mig...

Næst var stefnan tekin á Selfoss. Þar var ætlunin að skoða dýramynjasafn með tvíhöfða lömbum og fleiru í þeim dúr. Það gekk samt ekki betur en svo að safnið var lokað, -og búið að vera það í c.a 12 mánuði...
Við brunuðum því viðstöðulaust eins og leið lá uppí Ljósafossvirkjun, en þar er í gangi sýning sem heitir Aflið og okkur langaði að kíkja á. Eftir tveggja tíma árangurslaust bank á dyr og glugga, spól á milli bílastæði og ítrekaðar tilraunir til að hringja í Ljósafossvirkjun, Landsvirkjun eða bara yfirhöfuð einhvern sem gæti vitað eitthvað um málið urðum við að játa okkur sigraðar.

Bognar í baki og niðurlútar fórum við í sund á Selfossi (því þar er rennibraut, -Icelands biggest MINI AquaPark eins og þeir sögðu í auglýsingabæklingnum). Að sjálfsögðu var rennibrautin lokuð og löngu búið að taka niður baujuna sem hékk yfir innilauginni. Við létum það samt ekki hafa of mikil áhrif á okkur og gerðum okkar besta til að skemmta okkur í ostinum (hannaður fyrir 4-7 ára) og slaka á í heita pottinum.

Eftir sundið voru allir verulega svangir, svo stefnan var tekin á eina þjóðvegabúllu, þar sem ég fékk vondar franskar, en stelpurnar eitthvað aðeins girnilegra. Eftir matinn var spilað pool, með nýjum endurbættum reglum:

hvít kúla ofaní = -3 stig
einhver kúla önnur en sú svarta = 1 stig
svört kúla ofaní þegar það eru fleiri kúlur eftir á borðinu = viðkomandi missir öll sín stig

Þessar reglur klikkuðu samt aðeins, þar sem við hittum hvítu kúluna töluvert oftar ofaní heldur en aðrar kúlur og vorum því allar alltaf í mínus. Þ.e.a.s. alveg þangað til Eyrún þrusaði þeirri svörtu niður og missti því samkvæmt reglunum öll sín mínusstig og var sú eina okkar sem endaði í plús... -og já, það var ég sem tapaði :-(

Eftir þetta lá leiðin beint í bæinn, enda þorði engin okkar að mæta of seint í partý til Ellu. Það er nefninlega ekki á hverjum degi sem vinir manns hóta manni líkamsmeiðingum mæti maður ekki á staðinn...

Engin ummæli: