sunnudagur, nóvember 10, 2002

Jæja, mér skilst að það eina sem þið nennið að lesa séu hrakfalla sögur af mér, þannig að hérna kemur ein frá því í MH...

Það var laugardagsmorgunn, en ég vissi það ekki ennþá. Ég var nefninlega sofandi. Kvöldið áður höfðu nokkrir bjórar laumað sér í hendurnar á mér og endað líf sitt í mallakúts á meðan ég var ekki að fylgjast með. Ég man nú ekki nákvæmlega hvað gerðist eftir það, en skemmtilegt var það :-)

Jæja, nóg um það, það var semsagt laugardagsmorgun og ég ekki vöknuð, en það var um það bil að breytast því skyndilega opna ég augun. Það fyrsta sem ég sé er úrið mitt.

Klukkan er 8:10.

Allar aðvörunarbjöllur fara í gang og adrenalínið streymir út í líkamann. Áður en ég veit af stend ég í rúminu (ekki veit ég hversvegna ég stóð upp í rúminu, en ekki upp úr þvi).
Það er þá fyrst sem skynsemin vaknar nægilega til að átta sig á að það er helgi, -ég þarf ekki að mæta í skólann.
Við þessa uppgvötun er eins loftinu hafi verið hleypt úr blöðru, án þess að fá nokkuð við það ráðið lympast ég niður í rúmið og er sofnuð áður en ég lendi, öfug í rúminu.

Rúmum klukkutíma seinna rumska ég aftur, í þetta skiptið dorma ég í nokkrar mínútur áður en ég lít á klukkuna;

9:23

Aftur missi ég tökin á skynseminni þegar adrenalínið geysist út í æðakerfið og löngu áður en ég veit hvaðan á mig stendur veðrið er ég búin að setjast upp og stökkva framúr með höfuðið á undan!

Það er bara tvennt sem er að, rúmið mitt er upp við vegg og ég er sofandi öfug í því... ...í staðinn fyrir að enda standandi á gólfinu við hliðina á rúminu, þá mætir mér veggur sem er ekki til í að hleypa mér í gegn.
Að sjálfsögðu dauðrotast ég, og ranka ekki við mér aftur fyrr en um þrjúleytið, með dúndrandi höfuðverk, sárt enni og flest öll einkenni heilahristings...

Það sem eftir var dagsins sá ég litla marglita bletti hoppa í takt við æðasláttinn í höfðinu á mér, auk þess sem allar útlínur voru undarlega máðar.

Seinna frétti ég að pabbi hefði verið að spá í að vekja mig, en hætt við því ég væri örugglega þreytt eftir að hafa verið úti langt fram á nótt. Ég hefði getað stórslasað mig og enginn vitað af því í fleiri klukkutíma...

Það skal tekið fram að mér hefur aldrei aftur, hvorki fyrr né síðar liðið jafn ótrúlega illa daginn eftir drykkju. Það er líka alveg ljóst að ef mér á nokkurntíman eftir að líða svona þá hætti í að drekka. Permanently.

...

Engin ummæli: