föstudagur, nóvember 15, 2002

Aldrei þessu vant vaknaði ég á góðum tíma í morgun, fékk mér morgunmat og var jafnvel að hugsa um að skella mér í ræktina (nennti því samt ekki þegar upp var staðið) áður en ég fór í skólann.
Ég fékk þó ekki umflúið örlögin og var orðin tíu mínútum of sein þegar ég lagði bílnum mínum við Háskólabíó og tölti niðrí Lögberg. Á leiðinn inn er hægt að sjá inní stofurnar á neðstu hæðinni og að sjálfsögðu kíkti ég inn. Þið skiljið örugglega ekki hvað mér brá þegar ég sá einhvern vitlausan kennara vera kenna einhverju vitlausu fólki í stofunni minni (vitlaus = rangur, hér).

Ég reyni samt að láta þetta ekki slá mig út af laginu, tíminn á undan hlýtur að hafa tafist það bíða örugglega allir fyrir utan stofuna. En nei, þegar ég kem að stofunni er enginn fyrir utan. "Bíddu nú við" hugsa ég, "er ekki örugglega föstudagur í dag?" (það hefur nefninlega komið fyrir oftar en einu sinni að dagarnir koma ekki alveg í þeirri röð sem ég held þeir eigi að koma í). " Var ekki alveg örugglega fimmtudagur í gær? Var kannski miðvikudagur í gær, eða þriðjudagur?", " Have I lost my mind!!!"
Þarna stend ég semsagt eins og asni og get ómögulega munað hvaða dagur var í gær, hvaða dagur verður á morgunn og þaðan af síður hvaða dagur er í dag, þegar því skyndilega lýstur eins og eldingu niðrí höfðið á mér; "uhh, byrja ég ekki venjulega klukkan 11 á föstudögum..."

-ég var sem sagt meira en klukkutíma of snemma á ferðinni...

Engin ummæli: