sunnudagur, desember 02, 2007

Ófarir síðustu daga...

Eins og þeir sem umgangast mig allajafna hafa eflaust orðið varir við þá var veskinu mínu stolið um síðustu helgi.
Þar með hvarf á einu bretti allt sem ég á fyrir utan bílinn, ipodinn og auðkennislykilinn. Þetta hefur náttúrulega ýmsa ókosti í för með sér, glataðn síma, ný bankakort og heilan helling af nýjum pinnúmerum.
Til allrar óhamingju var ég ekki svo gáfuð að breyta eina pinnúmerinu sem ég kann að breyta, þ.e. símakortspin-inu, þegar ég hafði tækifæri til. Þess í stað taldi ég mér trú um að það væri ekkert mál að læra heilan haug af nýjum númerum öll í einu.
Afleiðing þess er að ég verið símalaus alla helgina því símaskrambinn varð batteríislaus á föstudagskvöldið og ég kann ekki númerið.

Það væri samt ekkert óyfirstíganlegt vandamál ef ég hefði ekki skilið miðann með númerinu eftir niðrí vinnu. Ég nefninlega kemst ekki inn niðrí vinnu, lyklar í hinu áðurnefnda stolna veski.


En jæja, hvað er maður að væla, það er jú alltaf heimasíminn til að hringja í þá 4 sem maður þó man númerið hjá... eða nei, heimasíminn er bilaður. Þú verður bara að láta þér félagskap sjálfrar þín nægja, væna.

En hvað um það, ég ætlaði ekki að leggjast í eymd og volæði, þ.e. ekki fyrr en eftir að ég datt niður stigann heima. Já ég datt! Og það var vont. Er með marinn hæl. Nú, hvernig er hægt að merja á sér hælinn spyrð þú. Sannleikurinn er sá að ég veit það ekki sjálf, en mér tókst það. Góðu fréttirnar eru þó þær að mér er bara illt í honum þegar ég stíg í vinstri...

Var þó enn ekki alveg á því að gefast upp. Nú skildi ég af-detti-væða þennan helvítis stiga, hef verið að hrynja þarna niður annað slagið síðan ég flutti inn 1999.
Og nú er sko komið nóg.

Bruna af stað í Húsasmiðjuna til að festa kaup á sandpappírslímrenningi, ca 5 cm breiðum. Á leiðinni uppgötvast að nýju debit/kredit kortin eru ekki með í för.
Ég sný við og byrja að leita, hvar hef ég verið, bíllin, eldhús, stofa, svefnherbergi, gangur baðherbergi ,sturta, ísskápur og allir mögulegir og ómögulegir staðir þar viðutan fólk getur lagt frá sér hluti, en allt kemur fyrir ekki.
Þegar ég er viðbúin að gefast upp á þessu og tilkynna kortin glötuð (aftur) dettur mér þó í hug einn staður sem ekki hefur verið fínkembdur og viti menn þar fundust þau.
Það var þó ekki gaman að finna þau, nei ó nei.

Hvar heldurðu að ég hafi fundið nýju fínu kortin eftir dauðaleit og já ég meina DAUÐALEIT! Ég veit þú trúir mér aldrei. Fyrir það fyrsta þá trúirðu ekki að mér hafi tekist að gera svona kjánlegan hlut og auki muntu ekki vilja trúa því að ég hafi actually leitað þar.

Ójá kæri lesandi, ég henti nýfengnu debet/kredit kortunum mínum.

Í ruslatunnuna.

Úti.