Ég er ekki búin að vera vakandi í nema tvo klukkutíma. Á þessum klukkutímum hefur líf mitt tekið óvænta stefnu. Niðrá við.
Ég svaf yfir mig, vaknaði ekki fyrr en hálf tíu við að systir mín var að vekja mig því hún var búin að brjóta á sér puttann og vantaði hjálp. Hún þurfti samt bara að bjarga sér sjálf, ég var alltof þreytt til að vera til gagns. Langaði mest til að fara bara aftur að sofa og sleppa þessu alveg. Reif mig samt framúr fyrir rest og fór í sturtu. Gerði heiðarlega tilraun til að kenna hundinum að opna hurðir. Gekk ekki.
10 mínútum eftir að ég vakna er ég að þvo gleraugun mín fyrir framan vaskinn inná baði þegar skyndilega ...aaaAAATTSSJJÚÚÚÚ!!! Læðist ekki þessi líka svaka hnerri aftan að mér. Ég kippist öll til, kikkna í hnjánum, beyglast fram og whhHHAAMMM höfuðið á mér skellur af gífurlegum krafti í kranan.
Ég læt alvarlega höfuðáverka samt ekki stoppa mig, heldur þurrka framan úr mér tárin, bít á jaxlinn og legg af stað í skólann.
Nema hvað, á leiðinni er ég stoppuð fyrir of hraðan akstur. Tekin á 105 í Ártúnsbrekkunni og auðvitað EKKI með belti!!! jæja "Seldom comes there one wave single" eins og þeir segja og það var þó lán í óláni að hámarkshraðinn var hækkaður úr 70 í 80 um daginn. Annars hefði ég MISST PRÓFIÐ!!! Ég sem var ekki einu sinni að flýta mér!!!
Auðvitað kom ég alltof seint í tímann, (klukkutími búinn, korter eftir) og ekki í neitt hrikalega glæsilegu skapi. Tekst þó með naumindum að halda aftur af fúkyrðaflaumnum þegar kennarinn segir enn einn af sínu ófyndnu, ófrumlegu og ÖMURLEGU bröndurum.
Milli tíma er kortershlé sem ég nota til að tala við nokkra vini mína. Fer svo í næsta tíma. Enginn mættur og tíminn á að vera byrjaður. Hvað heldurðu, er ekki fríið sem ég hélt að væri í næstu viku í dag og tíminn fellur niður.
Glæsilegt, ég er búin í skólanum í dag, náði korteri úr einum tíma, komin með ferlega flotta sekt, eitt stykki umferðarlaga brot, risavaxna kúlu á mitt ennið og höfuðverk.
Ég hefði betur sleppt því að fara framúr í morgun.
Það má sko bóka það að næst þegar ég vakna og langar mest til að fara aftur að sofa, -þá geri ég það.
Hver veit hversu mikið af fjárútlátum og líkamstjóni ég losna við með því...
miðvikudagur, nóvember 06, 2002
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli