mánudagur, ágúst 08, 2005

Einu sinni íhugaði ég að stofna nýtt blogg eingöngu undir strætó ævintýri mín, enda voru þau orðin ansi mörg og skrautleg á tímabili.

Sjáiði þið annars ekki fyrir ykkur að strætó stoppi útá miðri götu, hvergi stoppistöð í augsýn. Vagnstjórinn rjúki útúr bílnum og hlaupi á harðaspretti eins blá elding í burtu frá strætónum án þess að segja aukatekið orð.
Farþegarnir sitja sem steinrunnir, ekki múkk frá nokkrum þeirra, bara ég sem velti því fyrir mér hvort maður ætti að taka á rás í hina áttina.

- Hvað veit hann sem ég veit ekki? -

Tíu mínútum seinna sit ég ennþá á sama stað í strætó, ennþá hefur ekki heyrst eitt aukatekið orð frá hinum farþegunum (tja... og svosem ekki mér heldur), þegar vagnstjórinn kemur skokkandi til baka. Án skýringa sest hann bakvið stýrið, lokar dyrunum og keyrir af stað. Í þögninni.

Veit ekki hvað honum gekk til. En reynið núna að ímynda ykkur að þetta hefði verið í London en ekki Árbænum...



Annars var þetta engan vegin það sem ég ætlaði að skrifa. Ég ætlaði að deila með ykkur dramatískri lífsreynslu frá því á laugardaginn.

Mín fór hamingjusöm niðrí bæ til að skrúðgangast og vera "Gay for a day" eins og einhver orðaði það. Nema hvað á leiðinni heim um 6 leytið skoppa ég uppí strætó í Ártúninu (eða nánar tiltekið næstum undir Höfðabakkabrúnni).
Borga mitt fargjald og eins og mín er von og vísa hlamma ég mér beint í næsta lausa sæti. Við það kemur eitthvað fát á manninn hinu meginn við ganginn sem segir svo eins og það sé eðlilegasti hlutur í heimi "Ég myndi ekki setjast þarna, það var kona að pissa í sætið núna áðan"

Það var á því augnabliki sem ég ákvað að taka bílakaup til alvarlegrar athugunar

Engin ummæli: