föstudagur, mars 07, 2003

Síðastliðinn laugardag tók ég mig til og bakaði köku. Það væri svosem ekki í frásögur færandi nema fyrir það að baksturinn mistókst herfilega.

Þetta byrjaði allt með sakleysislegri hugdettu: 'ohh, ég er svo svöng!!! Það er ekkert til að borða... afhverju baka ég ekki svona eins og eina marmaraköku?'.
Jú jú þetta var náttúrulega góð hugmynd svo ég óð inní skáp, fann uppskriftabókina mína og marmaraköku uppskriftina, recrute-aði systur mína sem aðstoðarmann, sendi mömmu út í búð að kaupa hveiti og egg og hófst svo handa við baksturinn.

15 mínútum síðar var degið tilbúið, ofninn á fullu blasti og tónlistin líka. Þá var ekkert eftir nema smyrja eins og eitt stykki kökuform, eða það hélt ég. Mér til töluverðar skelfingar uppgötvaði nefninlega skyndilega hina raunverulegu ástæðu þess að ég hætti að baka marmarakökur. Við eigum ekkert kökuform sem passar.
Hvað var nú til ráða? Ekki var ég tilbúin til að henda deiginu, og kakan hefði brunnið til ösku ef ég hefði reynta að klína henni í alltof stórt form (það eina sem var til). Að sjálfsögðu dó ég ekki ráðalaus frekar en fyrri daginn, 'ég stækka bara uppskriftina!'. Og það gerði ég, in fact þá þrefaldaði ég hana, eða öllu heldur bakaði tvöfalda í viðbót. Nokkru síðar var deig númer tvö tilbúið, töluvert blautara en deig númer 1, en það skipti ekki máli.
Jæja, öllu heila klabbinu var svo skipt í þrjá hluta, bætt kakói í einn þeirra og svo sett lagskipt í kökuformið (sem að sjálfsögðu var vel smurt, maður klikkar nefninlega ekki á því oftar en einu sinni).

Það var samt ekki fyrr en ég var að setja þriðja og síðasta lagið í formið sem hinn skelfilegi sannleikur rann upp fyrir mér. Það var alltof mikið deig!!!. Deigið slétt fyllti formið, and that is not a Good Thing þar sem uppskriftin inniheldur m.a. töluvert af lyftidufti...
Þegar hér var komið í sögu var ég orðin töluvert pirruð á þessu veseni, svo ég henti bara afganginum af deiginu í ruslið, skellti þessu inn í ofn, stillti ofnklukku og ákvað að spá ekki meira í þessu næsta klukkutímann eða svo (sem er einmitt sá tími sem kakan á að vera í ofninum).
Klukkutíma síðar hringir ofnklukkan, Eva er komin í heimsókn til að bragða á kökunni (og náttúrulega til að hitta mig :-) híhí). Ég kíki inn í ofn, kakan er búin að lyfta sér töluvert hátt uppúr mótinu, ég prufa að stinga í hana með prjóni en hún er ekki tilbúin.
Nokkru síðar opna ég ofninn aftur til að tjékka á kökunni, en á móti mér kemur brunastækja. Kakan er búin að lyfta sér alla leið upp í topp ofnsins og er orðinn alveg skaðbrennd efst, en ennþá óbökuð inní. Ég færi kökuna neðst í ofninn (en hún var neðarlega to begin with) og bíð áfram.
Nú líður og bíður og loksins er kakan tilbúin, ég tek hana út úr ofninum og hvolfi henni á disk. Nema hvað, kakan var bara hreinlega ekki tilbúin, því að þegar ég hvolfi kökunni dettur skaðbrenndi parturinn bara af, og undan honum rennur, án þess að ég fái neitt við ráðið, heill hellingur af kökudeigsleðju útum allt!!!
Þetta var viðbjóðslegt!! Kakan gjörónýt og fljótandi deig útum allt í eldhúsinu, brunafnykinn lagði um alla íbúð og ég var ennþá alveg glorhungruð!!!

Endaði á því að fara á subway með Evu og kakan lenti í ruslinu. Tók samt myndir af henni (kökunni sko, ekki Evu), hver veit nema ég skelli þeim hingað inn við tækifæri???

Engin ummæli: