laugardagur, september 13, 2003

Gettu hvað!
Fyrir svona sirkabát viku síðan var ég að lesa gamlar færslur hjá mér (af því að ég hafði gjörsamlega ekkert að gera í skólanum... ehemm...) og ég komst að svolitið merkilegum hlut. Ég er ekki lengur skemmtileg!
Þetta kom náttúrulega frekar illa við mig þar sem alla jafna hef ég þá mynd af sjálfri mér að ég sé bara helvíti sniðug og skemmtileg í meiri hluta tilfella.
En nei ó nei, þarna áttaði ég mig á því að bloggið mitt hefur breyst í hrútleiðinlegt "Ég fór og gerði þetta blablabla" blogg.
Hvar eru veggirnir sem voru vanir að ráðast á mig með reglulegu millibili? Hvað er langt síðan ég datt síðast niður stiga? Hvar eru óhöppin, ég vil sjá blóð!!!

And give it to you I will...

Síðastliðinn föstudag var fyrsta bandýdæmið í íþróttahúsinu, ykkar einlæg mætti auðvitað full sjálfstraust (ekkert búin að læra á úrslitum bandýsins um daginn) og ætlaði bara að massa þetta.
Átta manns mættir, það er bara fínt, þrír í hvoru liði og tveir sem hvíla... og svo var spilað.

Mörkin dúndra á báða bóga, og lífið er ljúft.

Skyndilega sér Hildur þó hvar eigið mark er galopið og óvinurinn (í þessu tilviki Ari) á fleygiferð í áttina til þess rekjandi boltann á undan sér. Hildur stekkur náttúrulega strax í veg fyrir Ara og hleypur aftur á bak í átt að marki til að trufla hann. Það sem Hildur klikkaði samt á að taka með í reikninginn er að hún er ekkert alltof góð í að hlaupa venjulega, hvað þá afturábak. Enda vildi svo skemmtilega til að hún missti fótana, hlunkaðist á rassin, feykti markinu sjálfu eitthvert lengst út í buskann og kom í veg fyrir að óvinurinn (Ari) skoraði (enda markið ekki lengur á sínum stað þegar hann skaut)...

Nokkru síðar er Hildur í sakleysi sínu að gera ekki neitt þegar óvinurinn (Þorvaldur) dúndrar í átt að marki, Hildur sem er ekki með athyglina vakandi frekar en fyrri daginn tekst með snarræði og á ótrúlegan hátt að verja þetta þrumuskot með nefinu, já ég sagði NEFINU, -ekki alveg það sniðugasta...

Enn ekki löngu síðar eru Hildur og óvinurinn (núna er það Ella) að berjast um boltann þegar óvinurinn (aftur Ella) beitir allra lúalegasta braginu í bókinni, já hún laumaði kylfunni sinni undir lappirnar á mér svo að hægri fóturinn flaug í burtu og vinstra hnéð lenti í harkalegum slagsmálum við gólfið. Kannski óþarfi að taka fram að hnéð kom verr úr þeim slag en gólfið...

Nú er ég semsagt marin á rassinum, illt hnénu og meiði mig í nefinu þegar ég reyni að tyggja eitthvað hart eins og til dæmis gúmmíbirni...

Engin ummæli: