Ég hef alltaf talið mig yfir meðallagi gáfaða. Það virðist þó ekki koma í veg fyrir að ég geri heimskulega hluti, nú eða kannski er ég bara ekkert svo gáfuð.
Nú síðast hrikti í stoðum sjálfsálits míns þegar ég ætlaði að skella mér í gufu eftir vinnu. Eins og alþjóð veit þá bjóða allir betri vinnustaðir landsins uppá gufubaðsaðstöðu og líkamsrækt fyrir starfsfólk (eða það gerir vinnan mín að minnsta kosti) og ég ætlaði að notfæra mér það.
Eins og sönnu gáfumenni sæmir þá áttaði ég mig á að það væri kannski gáfulegt að setja gufuna í gang áður en ég færi í ræktina svona svo hún væri orðin heit þegar ég vildi fara að slaka á. Það tók mig ekki nema 20 mínútur að fatta hvernig maður kveikir á þessu apparati, og það þrátt fyrir að það séu bara þrír takkar í boði.
En það er engan veginn nóg til að sjálfsálitið taki einhverja kollsteypu, common, það er ekkert sjálfgefið að maður eigi að halda inni takka B í 15 sekúndur áður en maður fiktar í taka C og ýtir svo aftur á taka B til að koma öllu í gang. Takki A þjónar engum tilgangi, í það minnsta ekki svo ég viti til.
Nei, það var ekki fyrr en ég var búin í gufu sem stoðirnar brustu. Því hvernig fer maður að því að slökkva á apparatinu. Jú jú, maður náttúrulega reynir takka A og B og C í öllum mögulegum samsetningum, en allt kom fyrir ekki.
Læðist þá ekki að mér sá grunur að stóri rauði takkinn INNÍ gufunni gæti haft eitthvað að segja, svo ég vind mér inn og ýti á hann svona tvisvar þrisvar.
Ekkert gerist.
Jæja, ég er komin með leið á þessu og ákveð að gufuskrambinn verði þá bara í gangi að eilífu, eða þangað til það koma almennilegar leiðbeiningar. Og fer í sturtu.
Þetta væri nú ekkert í frásögur færandi nema fyrir það að stóri rauði gagnslausi takkinn er bara ekkert svo gagnslaus.
Þetta er neyðarhnappur.
Sem sendir neyðarboð.
Á strákana í næstu deild
Sem koma hlaupandi niður.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Mæ ó mæ!
Skrifa ummæli